Mesta glíman í lífinu er …

Mesta glíman í lífinu er……

Ef við erum heiðarleg við okkur sjálf og spyrjum hver sé mesta glíman í lífinu kæmi mér ekki á óvart að flestir segðu: ,,Mesta glíman í lífinu er glíman við mig sjálfa(n).“ Í ljósi þess ætti að vera í lagi að fullyrða að mesti sigurinn væri að SIGRAST Á SJÁLFUM SÉR, láta aldrei efann um eigið ágæti, eða óttann við að gera mistök ná tökum á manni.

,,Hausinn er erfiðasti andstæðingurinn,“ sagði Valsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson eftir EM í Frakklandi síðastliðið sumar en viðtal við hann birtist í Valsblaðinu 2016. Hver þekkir ekki hugsanirnar sem laumast aftan að manni annað slagið?: ,,Ég er ekki nógu góður, ekki nógu klár, ekki nógu fljótur, ég næ aldrei frábærum árangri.“

Hvers vegna að efast um sjálfan sig? Hvers vegna er sjálfsmynd okkar brotin annað slagið? Hvað hefur gerst í lífi okkur frá því við litum dagsins ljós og komust á ,,keppnisaldurinn“? Skorti okkur umhyggju í æsku, hvatti enginn okkur til dáða, brást skólakerfið, íþróttafélagið, eða hreinlega við sjálf?

,,Við sitjum öll á gullkistu,“ sagði Valsmaðurinn Ólafur Stefánsson við mig um daginn þegar við ræddum lífið og tilveruna, sigrana, töpin — mótlætið. Ólafur veit hvað hann syngur því hann lenti í mótlæti á fermingaraldrinum, komst ekki í stórt úrtak handboltakrakka sem voru taldir þeir bestu á Íslandi. Mótlætið varð til þess að hann fór að leggja harðar að sér, alla daga, alltaf — meðvitaður um að litlir, hversdagslegir hlutir dagsdaglega skapa stóra sigra. Óli Stef. varð síðan Íslandsmeistari, bikarmeistari, Þýskalandsmeistari, Spánarmeistari, Evrópumeistari, hann komst í heimsliðið og var kjörinn íþróttamaður ársins fjórum sinnum. Mótlætið var hans besti skóli og það að hann gerði sér grein fyrir því að það er ekkert til sem heitir styttri leið að frábærum árangri í lífinu.

Sjálfur spilaði ég í tólf ár með meistaraflokki Vals í knattspyrnu og við vorum yfirleitt sigursælir. Síðustu fimm árin var ég fyrirliði. Þrjú ár þar á undan lék ég með meistaraflokki Víkings frá Ólafsvík. Og ég lék sautján landsleiki. Síðustu tíu árin hef ég unnið með landsliðinu í knattspyrnu og þið getið ímyndað ykkur hvort tíminn á EM í Frakklandi síðastliðið sumar hafi ekki verið lærdómsríkur, enda árangurinn einstakur.

En þar kom mér samt fátt á óvart því ég hef verið meðvitaður um að ,,litlir hlutir skapa stóra sigra.“ Árangur í íþróttum næst ekki eingöngu með því að búa yfir frábærri boltatækni, æfa aukalega, borða hollan mat og setja sér markmið því það skiptir meira máli — HVERNIG KARAKTER ÞÚ ERT. Hvernig bregstu við mótlæti og hvað gerir þú í meðbyr og ekki síst: Hvernir nýtir þú þær TUTTUGU OG TVÆR KLUKKUSTUNDIR sem þú ert EKKI að æfa.

Klukkan hvað vaknarðu? Fékkstu nægan svefn? Hvað borðar þú í morgunmat? Með hvaða hugarfari ferðu út í daginn? Hvernig kemurðu fram við aðra? Berðu virðingu fyrir kennaranum/þjálfaranum? Hvað bók ertu að lesa, sem hreyfir við þér? Stundarðu hugleiðslu/núvitund? Nærðu að slaka nógu vel á? Hvað læturðu ofan í þig yfir daginn? Ertu leiðtogi í eigin lífi, flott fyrirmynd? Hefurðu hrósað í dag, gert góðverk, sem styrkir líka þína sjálfsmynd? Hendirðu Valsbúningnum á gólfið eða berðu virðingu fyrir honum? Er herbergið hreint? Vaskarðu upp án þess að vera beðinn um það? Eru foreldrar þínir þjónar í kringum þig? Læturðu heimalærdóm ganga fyrir? Hvað gerir þú þegar enginn sér til? Kennirðu öðrum um ef þér mistekst, ef þú kemst ekki í lið? Seturðu þér markmið reglulega?
Með öðrum orðum: Litlir hlutir skapa stóra sigra! Það er engin styttri leið fyrir þig ef þú vilt slá í gegn — slá í gegn fyrir sjálfan þig.

Á hverju einasta ári á ég samtöl undir fjögur augu við fjölda ungra íþróttaiðkenda, iðkendur ólíkra liða og sumum finnst þeir vera að missa af lestinni. Þeim finnst þjálfararinn ósanngjarn og eftirfarandi setningar eru algengar: ,,Þjálfarinn sér ekki hvað ég er góður. Pabbi segir að ég eigi heima í liðinu. Vinur minn er farinn á reynslu í útlöndum, ekki ég. Ég æfi fullt aukalega.“
Sjálfsgagnrýni er takmörkuð og sumir halda að grasið sé grænna hinum megin. Svo skiptir viðkomandi um lið og það sama gerist. Hann skiptir aftur um lið og alltaf er þjálfarinn ekki nógu góður. ,,En mamma og pabbi segja að…..“

Þeir þjálfarar, sem ég hef rætt við, segja að foreldravandamál í íþróttum hafi færst í aukana. En til allrar hamingju eru flestir foreldrar til hreinnar fyrirmyndar og þekkja af eigin raun gang lífsins, vita að það þarf að hafa fyrir hlutunum. En einstaka foreldrar skilja ekkert í því að ,,barnið þeirra“ fái ekki sanngjörn tækifæri. Og þetta gerist líka í meistaraflokki þegar ,,barnið“ er löngu orðið fullorðið.
Fyrir nokkrum árum varð Ísland Norðurlandameistari í U-17 ára landsliðinu í knattspyrnu. Flestir leikmenn liðsins héldu í atvinnumennsku, töldu að það væri þeim fyrir bestu, æfðu með unglingaliðum víða í Evrópu, fengu fá tækifæri en Elías Már Ómarsson hélt tryggð við Keflavík, með þolinmæði að leiðarljósi, sannfærður um að hann fengi tækifæri með meistaraflokki. Hann sló í gegn hér heima og var fyrstur Norðurlandameistaranna til að spila fyrir A-landslið Íslands. Grasið er ekki alltaf grænna hinum megin og yfirleitt er betra að flýta sér hægt.

Sjálfur þekki ég það að vera 17. maður í Valsliðinu heilt sumar, eftir tvítugt. Ég komst ekki einu sinni á varamannabekkinn og varð grautfúll. En gafst ég upp? Nei, ég endurskoðaði allt sem ég gerði yfir daginn og komst í liðið ári seinna. Flaug síðan inn í landsliðið. Mótlætið var minn besti skóli enda hefur eftirfarandi máltæki verið í miku uppáhaldi: ,,Þú ert þinnar eigin gæfu smiður“. Það eru orð að sönnu, innan vallar sem utan.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að hugsanlega munu aðeins 5% iðkenda í yngri flokkunum ná að spila með meistaraflokki. Kannski ekki einu sinni 5%. Og þar sem engir tveir einstaklingar eru eins hafa alls ekki allir iðkendur áhuga á því að verða afreksmenn en njóta engu að síður félagsskaparins í botn. Ég fullyrði, að þótt ég hafi spilað 179 leiki í efstu deild, orðið þrisvar Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari, stendur félagsskapurinn upp úr í minningunni, félagarnir sem lögðu sig fram hver fyrir annan, í blíðu og stríðu. Sú vinátta endist alla ævi.

Það skiptir miklu máli í félaginu okkar að við hjálpumst að við að ala upp börn og ungmenni þannig að þau standi sig vel innan vallar sem utan — eru sjálfum sér og félaginu til sóma í hvívetna. Það verða alltaf vonbrigði fyrir metnaðargjarna iðkendur að ná ekki að spila með meistaraflokki en þegar árin færast yfir áttar maður sig á því að íþróttaiðkun, aginn, mótlætið, meðbyrinn, félagsskapurinn er besti skóli sem til er — hvort sem leikirnir í meistaraflokki voru 0, 20 eða 200. Og reynslan af þessum skóla skilar okkur sem heilsteyptari einstaklingum út í lífið — þar sem við þurfum að glíma við okkur sjálf alla daga. Kannski sigrumst við aldrei á okkur sjálfum en við getum lagt okkur fram, alla daga, hverja einustu mínútu meðvituð um að lífið er núna. Ekki í gær, ekki á morgun — heldur í dag.

Áfram Valur!
Þorgrímur Þráinsson