Val í lið A-Ö

Að velja í lið getur verið vandasamt verk, ekki síst í stóru og fjölmennu félagi. Hjá okkur er gríðarlegur fjöldi í hópnum og fjölmargir efnilegir iðkendur gera þetta verkefni enn flóknara en engu að síður skemmtilegra. Stundum eru ekki allir sammála um val á liði í fótbolta eins og landsliðsþjálfarar Íslands í gegnum tíðina geta vottað til um. Hins vegar er það ætíð svo að þjálfararnir ráða og því verður sem betur fer seint haggað!

Þjálfarar yngri flokka Vals leggja áherslu á að vanda sig og gefa sér tíma í val á liðum. Þjálfarar hvers flokks bera saman bækur og reyna að velja í lið eftir bestu getu. Þeir hafa reynslu, menntun og þekkingu á sviði fótboltans, þekkja hópinn sinn vel og ber því að treysta fyrir verkefninu.

Í mótum er keppt í mörgum styrkleikaröðuðum liðum samkvæmt tilmælum knattspyrnuforystunnar og er því styrkleiki piltanna oft efstur í huga þjálfara þegar raða á í lið. Þeir eiga að fá að spila við jafningja sína. Það er engum fyrir bestu að spila í liði fyrir ofan styrkleika sinn, þá gæti sjálfsmat iðkenda versnað. Það getur stundum verið betra að blómstra í t.d. D-liði frekar en að vera í aukahlutverki í C-liði og er undir þjálfurum komið að finna hvað er iðkendum fyrir bestu. Þegar valið er í lið getur æfingasókn iðkenda, áhugi, dugnaður og stundvísi auðvitað einnig skipt sköpum.

Viðhorf foreldra við liðsvali vega mjög þungt gagnvart barninu. Mikilvægt er að foreldrar geri gott úr liðsvali og hvetji börnin áfram til að hafa gaman af og standa sig frekar en að ýta undir ósætti meðvalið. Í mörgum tilvikum er barninu nokkuð sama í hvaða liði það er og fyrst og fremst ánægt með að fara á skemmtilegt fótboltamót með félögunum.

Því má heldur ekki gleyma að í yngri flokkum er algjört aðalatriði að barnið hafi gaman af og njóti þess að spila fótbolta. Undir slíkum kringumstæðum bæta iðkendur sig einnig mest. Með þetta í huga er jákvæður stuðningur foreldra ómetanlegur.

Niðurröðun í lið í yngri flokkum hefur heldur ekkert að gera með hverjir skara framúr í íþróttinni seinna meir. Það eru til fjölmörg dæmi um þaulreynda A-landsliðsmenn sem voru ekki í bestu liðunum þegar þeir voru yngri en bættu sig með tímanum hægt og bítandi. Þessir kappar stunduðu alltaf íþróttina af krafti, lögðu sig fram í öll verkefni og höfðu leikgleðina í fyrirrúmi á æfingum og í leik. Þeir uppskáru líka eftir því.

Í dag fá allir iðkendur jöfn tækifæri til að láta ljós sitt skína á knattspyrnuvellinum. Stefna yngri flokka Vals er að allir iðkendur fái jöfn tækifæri til að njóta fótboltans og fái verkefni við hæfi. Við viljum standa saman í að hvetja öll okkar lið á jákvæðum forsendum.

Tíu góð ráð fyrir foreldra:

1. Komdu á æfingu eða keppni þegar þú getur. Barninu finnst það gaman!
2. Ekki hvetja barn þitt í leik eða keppni. Hvettu allt Vals-liðið.
3. Sýndu jákvæðni í meðbyr jafnt sem mótlæti – ekki nota neikvæða gagnrýni.
4. Berðu virðingu fyrir þjálfaranum – Ekki gagnrýna hann meðan á leik eða keppni stendur.
5. Dómarinn er til að leiðbeina og kenna jafnt sem dæma. – Ekki gagnrýna hann.
6. Hvettu barnið þitt til að taka þátt í æfingum eða keppni – Ekki beita þrýstingi.
7. Spurðu að keppni lokinni hvort var gaman. – Ekki hvernig fór.
8. Hafðu barnið rétt og skynsamlega útbúið. – Engan íburð!
9. Berðu virðingu fyrir starfi félagsins. Vertu styðjandi sem foreldri.
10. Mundu að það er barnið þitt sem tekur þátt. – EKKI ÞÚ.